Áætlaður heildarkostnaður vegna biðlauna fyrrverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins er 178 milljónir króna. Þar af eru rúmlega 142 milljónir gjaldfærðar á reikningsárinu 1. apríl 2007 til 31. ágúst 2007.

Þetta kemur fram í ársreikningi Ríkisútvarpsins ohf. Aðalfundur félagsins fer fram í dag. Samkvæmt reikningnum er tap félagsins á tímabilinu rúmlega 108 milljónir. Bent er á í skýrslu stjórnar að án biðlauna væri hagnaður af starfsemi félagsins. Alls 38 starfsmenn þáðu biðlaun er rekstrarformi RÚV var breytt.

Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Það var stofnað 1. apríl 2007 og er því miðað við reikningsárið frá þeim tíma í ársreikningnum. Samkvæmt lögum um félagið tilnefnir Alþingi fulltrúa í stjórn þess.

Þær breytingar verða á aðalstjórn RÚV í dag að í stað Páls Magnússonar sem var fulltrúi valinn af Framsóknarflokknum í stjórn kemur Ari Skúlason sem er fulltrúi valinn af Samfylkingunni. Áfram verða í aðalstjórn Ómar Benediktsson, sem var valinn af sjálfstæðismönnum, Kristín Edwald, Sjálfstæðisflokki, Svanhildur Kaaber, Vinstri grænir og Margrét Frímannsdóttir, Samfylkingu.

Laun til útvarpsstjóra um 7,7 milljónir á tímabilinu

Samkvæmt ársreikningnum voru rekstrartekjur á umræddu tímabili um 1,7 milljarðar. Þar af voru tekjur vegna afnotagjalda rúmlega 1,1 milljarður. Tekjur vegna auglýsinga og kostnaðar námu ríflega 516 milljónum. Aðrar tekjur voru 58 milljónir.

Rekstrargjöld á tímabilinu voru rúmlega 1,6 milljarðar. Þar af var dagskrárkostnaður um 1,1 milljarður, sölukostnaður um 105 milljónir, gjöld vegna dreifikerfis um 80 milljónir og kostnaður vegna reksturs og stjórnunar tæplega 285 milljónir.

Meðalfjöldi starfa hjá Ríkisútvarpinu ohf. er 326. Í ársreikningnum kemur fram að heildarlaun og þóknanir til ellefu helstu stjórnenda hafi numið 45 milljónum króna, þar af til útvarpsstjóra, Páls Magnússonar, 7,7 milljónum króna.