*

laugardagur, 4. desember 2021
Erlent 8. janúar 2021 07:18

Ryanair fellir niður nær öll flug

Fella niður nær öll flug frá Írlandi og Bretlandi vegna hertra sóttvarnaraðgerða. Gagnrýna ríkisstjórnir landanna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Ryanair hyggst fella niður nær öll flug frá Írlandi og Bretlandi frá og með 21. janúar til að bregðast við áhrifum harðra aðgerða á Bretlandseyjum til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. BBC greinir frá.

Flugfélagið varar við því að örfáar, eða jafnvel engar, flugferðir verði á vegum félagsins til og frá Írlandi og Bretlandi frá seinni part janúar mánaðar og allt þar til ströngum takmörkunum hefur verið aflétt.

Þar að auki hefur lággjaldaflugfélagið uppfært farþegaspá sína fyrir þetta ár í samræmi við þetta. Áður reiknaði félagið með að farþegar yrðu rétt undir 35 milljónum en nú er gert ráð fyrir að farþegar verði 26-30 milljónir á þessu ári.

Í yfirlýsingu fer Ryanair hörðum orðum um ákvarðanir ríkisstjórna Írlands og Bretlands um að grípa til strangra útgöngubanna.

„WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin) hefur lagt áherslu á að ríkisstjórnir ættu að gera allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir íþyngjandi útgöngubönn, þar sem að útgöngubönn útrými ekki veirunni," segir m.a. í yfirlýsingu Ryanair.