Forráðamenn Ryanair tilkynntu um sparnaðaraðgerðir í gær til þess að vega upp á móti hækkandi eldsneytisverði. Verið er að skoða alla útgjaldaliði -- þar á meðal laun æðstu stjórnenda  -- og stefnt er að því að draga úr útgjöldum um 400 milljónir evra. Ástæðan fyrir þessum aðgerðum er meðal annars skortur á vörnum gegn hinu síhækkandi háa eldsneytisverði.

Nokkuð er síðan olíutunnan fór yfir 100 dollara, og hefur hún mest kostað yfir 109 dollara. Veiking dollara hefur haft sitt að segja um hækkandi verð, en jákvæð tíðindi frá Saudi-Arabíu og styrking dollarans á undanförnum dögum hefur ýtt verðinu á olíutunnunni aftur nær 100 dollurunum.