*

þriðjudagur, 27. október 2020
Erlent 18. maí 2020 11:56

Ryanair spáir helmingun farþega

Ryanair býst við 200 milljóna evra tapi á öðrum fjórðungi samhliða 74 milljóna farþega fækkun frá fyrri spám.

Ritstjórn
Michael O'Leary, forstjóri Ryanair

Ryanair býst við að farþegafjöldi félagsins falli niður í 80 milljónir en flugfélagið hafði gert ráð fyrir 154 milljónum áður en heimsfaraldurinn skall á. Írska flugfélagið áætlar að segja upp þrjú þúsund manns, um 15% af vinnuafli þess, til að bregðast við faraldrinum.

Hagnaður Ryanair á liðnu fjárhagsári sem lauk síðastliðinn mars nam um einum milljarði evra sem er um 13% hækkun frá fyrra ári. Flugfélagið hefur ekki gefið út afkomuspá fyrir núverandi fjárhagsár en gerir þó ráð fyrir meira en 200 milljóna evra tapi á öðrum ársfjórðungi samkvæmt frétt BBC.

Sjá einnig: Ryanair býst við verðstríði í háloftum

Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, sagði í viðtali við BBC að Ryanair hygðist hefja mörg flug á ný í júlí næstkomandi þrátt fyrir kvaðir stjórnvalda um að farþegar sem fljúga til Bretlands fari í 14 daga sóttkví við komu. O‘Leary, sem hefur áður kallað fyrirætlanirnar heimskulegar og óframkvæmanlegar, spáir því að þeim verði aflétt fyrir júní.

Ryanair hefur sagt að efnahagsreikningur félagsins, sem hefur um 4 milljarða evra lausafjár, sé einn sá sterkasti í flugiðnaðinum. Flugfélagið hefur gefið það út að það mun ekki sækjast eftir ríkisaðstoð. 

Sjá einnig: Lufthansa eins og fulli frændinn

Ryanair hefur ekki gefið út afkomuspá fyrir núverandi fjárhagsár en gerir þó ráð fyrir meira en 200 milljóna evra tapi á yfirstandandi ársfjórðungi. „Þegar við horfum til næsta árs, þá verða mikil tækifæri fyrir lággjaldaflugfélög eins og Ryanair á meðan samkeppnisaðilar minnka við sig, fara í þrot eða eru yfirteknir af flugfélögum sem þegið hafa ríkisaðstoð,“ segir í tilkynningu félagsins.