Félögum í Kauphöllinni tók að fækka strax eftir aldamót, en hlutfall markaðsvirðis af landsframleiðslu náði hápunkti árið 2006 þegar það var 218%. Hlutfallið lækkaði niður í 13% árið 2009 en stóð í 43% í síðustu viku, sé miðað við landsframleiðslu síðasta árs. Sambærilegt hlutfall er 70% í Danmörku og 51% í Noregi, en 103% í Svíþjóð og 116% í Bandaríkjunum.

Jóhanna Katrín Pálsdóttir, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að það sé rými fyrir fleiri félög á íslenska markaðinn. „En það er alltaf spurning um hvað við fáum mikið inn í einu. Ég held að svona tvö til þrjú félög á ári sé eitthvað sem markaðurinn getur tekið við. Mörgum af þeim félögum sem við höfum verið að fá á markað síðustu ár er kannski búið að koma að miklu leyti í endanlegt eignarhald. Lífeyrissjóðirnir eru komnir inn sem eigendur fyrir skráningu.“

Jóhanna segir að á meðan erlendir fjárfestar séu ekki þátttakendur á markaðnum þá sé takmarkað hversu miklu fjármagni hlutafjármarkaðurinn getur tekið við á ári hverju. „Markaðurinn gæti ekki tekið við öllum þremur bönkunum í einu, það er alveg klárt mál,“ segir Jóhanna.

Ítarlega er fjallað um íslenska hlutabréfamarkaðinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .