Sú kólnun sem nú gengur yfir fasteignamarkaðinn er afleiðing mikillar þenslu á undanförnum árum, en hún var fyrirséð og við henni varað m.a. af Samtökum atvinnulífsins og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Þetta kemur fram í nýrri greinargerð Samtaka atvinnulífsins (SA) um þróun á húsnæðismarkaði 2003-2008

Þar segir að með stefnumörkun stjórnvalda sumarið 2003 og upptöku 90% lána Íbúðalánasjóðs sumarið 2004 var atburðarrás hrundið af stað sem leiddi til þess vanda sem nú er við að glíma.

„Mikil hækkun lána og lánshlutfalls almennra lána í opinbera íbúðalánakerfinu leiddu til sviptinga á verði íbúðahúsnæðis og röskuðu jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Staðan sem blasir við í dag verður ekki rakin til bankanna. Íbúðaverð tók að hækka þegar í kjölfar Alþingiskosninga 2003 þegar loforð um 90% íbúðalán voru færð í stjórnarsáttmála,“ segir í greinagerð SA.

Þá segir SA að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum eru skynsamlegt skammtímaúrræði til að freista þess að afstýra hruni á fasteignamarkaði, bæta lausafjárstöðu og stuðla að eðlilegra ástandi á innlendum lánamarkaði.

„Í þessum ráðstöfunum felst þó hvorki lausn varðandi aðgang íslenskra fjármálafyrirtækja að erlendu lánsfé né ásættanleg langtíma lausn á húsnæðislánamarkaði,“ segir í greinagerðinni.

Þá kemur einnig fram að SA telur aðgerðir ríkisstjórnarinnar stefna fyrst og fremst að því að létta undir með viðskiptavinum bankanna, sem búa nú við allt aðrar og verri aðstæður til fjármögnunar en áður og koma í veg fyrir að viðskipta- og athafnalíf þjóðarinnar stöðvist.

„Það er fjarri lagi að ríkisstjórnin eða jafnvel Íbúðalánasjóður sé að koma bönkunum til bjargar,“ segir í greinagerð SA.

„Íbúðalánasjóður býr við forgang að langtíma sparnaði þjóðarinnar í krafti ríkisábyrgðar á skuldbindingum hans og löggjafar um útbreiddustu langtímaskuldabréf á markaðnum, íbúðabréf. Sparnaðurinn sem lánveitingar Íbúðalánasjóðs byggjast á kemur fyrst og fremst frá lífeyrissjóðum. Bankar og önnur fjármálafyrirtæki hafa ekki átt kost á sambærilegri fjármögnun heldur hafa í vaxandi mæli reitt sig á erlenda fjármögnun. Þegar slík leið nánast lokast bitnar það óhjákvæmilega á útlánastarfsemi þeirra,“ segir í greinagerðinni.

SA segir að fyrir almenning í landinu er það farsælt að geta átt öll sín helstu fjármálaviðskipti við viðskiptabanka sinn eða sparisjóð.

„Með því er stuðlað að sem bestri heildarráðgjöf um fjármál hvers og eins, en slíkt fyrirkomulag er ríkjandi í nágrannaríkjum okkar. Tugþúsundir heimila í landinu hafa nýtt sér auknu þjónustu fjármálafyrirtækja, til húsnæðiskaupa og endurfjármögnunar á óhagstæðari lánum.“

Þá segir jafnframt:

„Fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs stenst ekki ríkisstyrkjaákvæði EES-samningsins. Það er forgangsmál að stjórnvöld hefji hið fyrsta nauðsynlegar breytingar á aðkomu sinni að húsnæðislánamarkaði og skilji að félagslega lánastarfsemi, þar sem þau hafa hlutverk, og almennar lánveitingar sem betur er komið í höndum fjármálafyrirtækja.“

Hér má sjá greinagerð SA.