Samtök atvinnulífsins telja að Seðlabankinn vanmeti eignir Íslendinga erlendis um allt að 400 milljarða króna við útreikninga sína á skuldum þjóðarinnar.

SA segir að samkvæmt nýútkomnum tölum Seðlabankans virðast íslenskir fjárfestar hafa orðið fyrir meiri háttar hremmingum ár eftir ár í fjárfestingum sínum erlendis en haldið samt ótrauðir áfram fjárfesta og tapa fjármunum. Skuldir þjóðarinnar umfram eignir eru samkvæmt bankanum um 1354 milljarðar króna eða 119,5% af vergri landsframleiðslu. "Slík skuldastaða er ógnvænleg og því er það merkilegt að í atvinnulífi landsmanna skuli lítið heyrast um varnaðarorð. Ástæðan er eflaust sú að það umhverfi sem birtist í hagtölum Seðlabankans er afar framandi flestum sem starfa í atvinnulífinu og fylgjast með gangi þess. Miðað við eðlilega áxöxtun vanmetur Seðlabankinn eignir Íslendinga erlendis um allt að 400 milljarða króna. Það er því nauðsynlegt að fram fari gagnger bragarbót á talnagrunni Seðlabankans áður en það verður almenn skoðun út um heim að Ísland sé að fara á hausinn á meðan efnahagslífið stendur í raun sterkari fótum en nokkru sinni fyrr," segir í frétt SA sem birtist á vef samtakanna.