Eigendur sænsku bílaframleiðendanna Saab og Volvo, bandarísku bílaframleiðendurnir General Motors og Ford, hafa leitað til sænsku ríkisstjórnarinnar um fjárhagsaðstoð. Þetta kemur fram í FT, sem segir báða sænsku bílaframleiðendurna rekna með tapi, en GM og Ford eiga einnig í miklum fjárhagserfiðleikum og hafa þurft að leita á náðir bandarískra stjórnvalda.

FT segir að Ford og GM muni í vikunni segja bandaríska þinginu að langtímaáætlanir þeirra geri ráð fyrir sölu á Volvo og Saab, en þeir munu í vikunni færa þinginu röksemdir fyrir ósk um 25 milljarða dala neyðaraðstoð.

Haft er eftir greinanda hjá Stjórnunarstofnun Gautaborgar að sænska ríkið íhugi að verja um 2 milljörðum sænskra króna í aðstoð eða lán til Saab og Volvo, þó að ekkert muni vera ákveðið.

Volvo tapaði 458 milljónum dala fyrir skatta á þriðja ársfjórðungi og Saab hefur ekki skilað hagnaði frá því GM keypti fyrst hlut í því árið 1989.

Þá segir FT að þýska ríkisstjórnin íhugi nú að láta dótturfélag GM, þýska bílaframleiðandann Opel, fá eins milljarðs evra lánaábyrgð.