Sádi-Arabískir furstar hafa hætt við fyrirhuguð kaup á enska fótboltafélaginu Newcastle United. Fjárfestahópurinn, sem inniheldur PIF þjóðarsjóð Sádi-Arabíu, PCP Capital Partners og Reuben bræðurna, náði samkomulagi um 300 milljóna punda yfirtök á fótboltafélaginu í apríl síðastliðnum.

Kaupsamningurinn hefur síðan þá verið til skoðunar undir svokölluðu „eigenda og stjórnenda“ prófi hjá ensku úrvalsdeildinni. PIF þjóðarsjóðurinn fékk sig fullsaddan á biðinni og ákvað á stíga frá samningnum, samkvæmt heimildum BBC .

Lögfræðingar ensku úrvalsdeildarinnar höfðu leitast eftir nákvæmari útskýringu á tengslum PIF og Sádi-Arabíska ríkisins en Mohammed bin Salman krúnuprins er stjórnarformaður þjóðarsjóðsins.

Núverandi efnahagsumhverfi, möguleg önnur bylgja af Covid smitum og engir áhorfendur á leikvöngum spiluðu einnig inn í ákvörðunina.

Fyrirhuguð kaup fjárfestahópsins á Newcastle United voru umdeild fyrir ýmsar sakir. Mannréttindasamtök og eiginkona Jamal Khalshoggi, blaðamanns sem var myrtur árið 2018 í sendiráði Sádi-Arabíu í Tyrklandi, höfðu kallað eftir því að enska úrvalsdeildin og stjórnvöld kæmu í veg fyrir kaupsamninginn.

Einnig hafði katarska sjónvarpsstöðin beIN Sport, sem hefur sýningarrétt á enska boltanum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, óskað eftir ítarlegri rannsókn á fjárfestahópnum. Stjórnarformaður beIN sakaði Sádi-Arabíska ríkið um þjófnað á útsýningarrétti fyrirtækisins vegna ólöglegra útsendinga sjóræningjasjónvarpstöðvarinnar beoutQ.