Yfirmenn lögreglunnar í Stokkhólmi sendu í dag tilmæli til notkunar innanhúss þar sem koma fram leiðbeiningar um hvernig lýsa eigi eftir grunuðum glæpamönnum.

Meðal þeirra tilmæla sem koma fram í bréfinu eru að ekki eigi að greina frá kynþætti eða þjóðerni grunaðra. Tilmælin ná til allra birtinga á grunuðum, allt frá umferðalagabrotum til alvarlegra líkamsárása og morða. Bréfið var skrifað af Wolf Gyllander, fjölmiðlafulltrúa lögreglunnar í Stokkhólmi. „Við viljum komast hjá því að mála einn kynþátthóp sem glæpamenn,“ sagði Wolf.

Í bréfinu segir einnig að lögreglan sæti stundum gagnrýni fyrir að birta upplýsingar um húðlit þegar verið er að auglýsa eftir mönnum sem lýst er eftir. Gagnrýnin hafi beinst að því að lögreglan sé með því að sýna af sér kynþáttafordóma, en slíkt vilji lögreglan ekki gera.