Í kvöld verður félagsfundur hjá Pírötum þar sem lögð verður fram tillaga um breytingar á samþykkt flokksins á reglum um þingmennsku og ráðherrasetu.

Hingað til hefur það verið ein af ófrávíkjanlegu kröfum Pírata að ráðherrar geti ekki setið á þingi á sama tíma. Gagnrýnendur hafa bent á að þá myndi halla enn meira á stjórnarandstöðuna í mannafla á þingi.

Ef farið væri eftir reglunni gæti orðið þröngt á þingi, því ráðherrar hafa seturétt í þingsalnum ásamt rétti til að taka máls, þó hafi ekki beinan atkvæðarétt.

Skortir 6 sæti í salinn

„Í þingsalnum eru nú 56 sæti, auk sætis forseta og ráðherra sem eru 10. Samtals gætu því að óbreyttu 67 þingmenn og ráðherrar setið í þingsalnum á þingfundi. Það skortir því 6 sæti á að tölunni 73 sé náð,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis í samtali við Morgunblaðið , en 10 varamenn þyrfti að kalla inn á þing í staðinn fyrir ráðherrana ef þeir segðu allir af sér þingmennsku.

„Ráðuneyti eru 8 og það mætti hugsa sér að í utanþingstjórn sætu aðeins 8 ráðherrar, en þá skortir enn sæti fyrir 4 þingmenn. Stundum hafa verið sett upp aukasæti fyrir framan fremstu skeifu, þau eru tvö eitt, hvorum megin. Þá yrði enn að finna sæti fyrir tvo þingmenn, og sennilegt að það tækist, en þröngt yrði í þingsalnum.