Ars Technica, einn vinsælasti tæknimiðill í heimi, segir að netvafrinn Safari eigi á hættu að úreldast og deyja út. Segir í grein miðilsins að Apple sé ekki nógu duglegt að uppfæra vafrann og að með þessu áframhaldandi muni bæði notendur og hönnuðir gefast upp.

Það er ekki einungis Nolan Lawson hjá Ars Technica sem hefur áhyggjur af framtíð Safari, en fyrirsögn greinar hans er „Safari er hinn nýi Internet Explorer“. Ben Thompson, einn virtasti Apple bloggari í heimi, sagði í daglegum tölvupósti sínum í dag að Safari sé allt of lengi að tileinka sér nýjungar, ef þær ná til vafrans yfir höfuð.

Í grein Ars Technica er stungið upp á því að Apple opni hönnunina á Safari fyrir almenningi. Þá geti forritarar hvaðanæva úr heiminum haldið áfram að bæta vafrann, öllum til góðs. Þetta fyrirkomulag hefur verið vinsælt með mörg forrit, en ólíklegt er að Apple tileinki sér þessa vinnuaðferð.

Ef Apple heldur áfram á sömu braut mun Safari þó líklega enda eins og Internet Explorer. Óvinsæll og einmana.