Saga Capital er komið í slitamferð. Þetta staðfestir Dr. Hersir Sigurgeirsson sem gegndi stöðu forstjóra hjá Saga Capital í samtali við Viðskiptablaðið en tilkynnt er um slitameðferð fyrirtækisins í Lögbirtingarblaðinu í dag.

Kröfuhafafundur fer fram 16. ágúst næst komandi en Hersir vildi ekki gefa upp hverjir helstu kröfuhafar félagsins eru. Hersir segir að ljóst hafi verið að fyrirtækið yrði tekið til slitameðferðar þegar leyfi fyrirtækisins til að starfa sem fjármálafyrirtæki var afturkallað í október í fyrra.

Slitastjórn hefur verið skipuð yfir Saga Capital en hana skipa þau Ástráður Haraldsson, Arnar Sigfússon og Sigrún Guðmundsdóttir.

Leiðrétting: Í fréttinni sagði að Saga Capital sé gjaldþrota. Hersir Sigurgeirsson segir það ekki rétt og ekki rétt haft eftir honum. Hann staðfesti að félagið hafi verið tekið til slitameðferðar. Hann segir að þrennt geti nú gerst, félaginu verði skilað aftur til hluthafa ef það á fyrir skuldum, það nái nauðasamningum við kröfuhafa eða það fari í gjaldþrotameðferð ef það á ekki fyrir kröfum og ekki náist samningar við kröfuhafa. Hersir telur mestar líkur á að félaginu verði skilað til hluthafa eða samningar náist við kröfuhafa.