*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Innlent 27. janúar 2014 18:45

Sagði einfalt en flókið að afnema verðtrygginguna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir stefnuna setta á að afnema verðtryggingu á kjörtímabilinu.

Ritstjórn

Verðtryggingin verður afnumin af neytendalánum á kjörtímabilinu. Það er einfalt en flókið og umfangsmikið verk, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, spurði Sigmund á Alþingi í dag hvort og hvernig verðtryggingin verði afnumin af neytendalánum. Tillögur sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum voru kynntar í síðustu viku. 

Sigmundur sagði í raun einfalt að afnema verðtrygginguna.

„Það er í raun og veru mjög einfalt að segja bara að verðtryggð neytendalán séu bönnuð,“ sagði forsætisráðherra. Hann bætti hins vegar við að sama máli gegni ekki um það sem þarf að ráðast í samhliða afnámi verðtryggðarinnar, þ.e. yfirfærslu yfir í nýtt kerfi.

„Þær eru eðli málsins samkvæmt umfangsmiklar og flóknar vegna þess að verið er að taka upp raunar nýtt fjármálakerfi í landinu,“ sagði Sigmundur.