Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, eiga hvort um sig hátt í 200 milljónir króna í lífeyrissjóði hins opinbera eftir langa starfsævi á Alþingi. Þetta er mat Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Hann velti því upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort allar afskriftir lífeyrissjóða á eignum þeirra vegna hugsanlegs fjársýsluskatts á þá muni skerða réttindi sjóðsfélaga. Þar á meðal velti hann því upp hvort sú hugsun muni ganga yfir alla, s.s. lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem njóta bakábyrgðar ríkissjóðs. .

„Það gefur auga leið að þetta kemur við alla lífeyrissjóðina,“ sagði Jón.

Steingrímur sagði stefnt að því að setja á laggirnar eitt samræmt lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn. Mikilvægt sé hins vegar að aðgreina A-deild Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og B-deildina um þann uppsafnaða vanda sem þar liggur.

Steingrímur svaraði því hins vegar engu til hversu háa fjárhæð hann á í lífeyrissjóði.