Allir sakborningar í al-Thani málinu hafa tekið ákvörðun um að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Þetta er fullyrt á fréttavefnum Vísi. Sakborningarnir fjórir voru dæmdir í þriggja til fimm og hálfs árs fangelsi fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í gær.

Þyngsta dóminn fékk Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþingssamstæðunnar. Hann hlaut fimm og hálfs árs dóm. Sigurður Einarsson stjórnarformaður fékk fimm ára dóm, Ólafur Ólafsson, einn aðaleigandinn, fékk þriggja og hálfs árs dóm og Magnús Guðmundsson fékk þriggja ára dóm.

Þá segir Vísir að Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall hafi ákveðið að áfrýja þeirra hluta dómsins, en þeim var gert að greiða milljón krónur hvor í réttarfarssekt. Þeir voru verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar á fyrri stigum málsins en ákváðu að segja sig frá málinu í óþökk dómara.