*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Fólk 25. mars 2018 19:01

Saknaði kraftsins á Íslandi

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir er gengin til liðs við Aton eftir að hafa búið erlendis síðustu 5 árin.

Ritstjórn
Nýr ráðgjafi hjá Aton, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, hefur starfað við fjölda kosninga- og auglýsingaherferða erlendis síðan hún kláraði sérhæft nám í því í New York.
Haraldur Guðjónsson

Aton ráðgjafastofa hefur ráðið til sín Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur en hún er nýflutt heim eftir fimm ára dvöl erlendis. „Við erum í almannatengslum og alls kyns ráðgjöf fyrir stofnanir og fyrirtæki, þar á meðal samskiptaráðgjöf, auk þess að vinna ýmiss konar úttektir,“ segir Bryndís um nýja starfið sitt.

„Það skemmtilegasta við að koma heim er að finna það hvað hlutirnir gerast hér hratt. Það er einhver svona kraftur á Íslandi sem maður saknar úti þar sem allt hreyfist hægar enda einingarnar sem maður er að vinna í svo stórar.“

Bryndís er með BA gráðu í stjórnmálafræði og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði, og starfaði áður við almannatengsl og blaðamennsku, auk þess að vera varaborgarfulltrúi fyrir Samfylkinguna. Einnig hefur hún verið virk í alls kyns félagsstörfum, meðal annars var hún formaður Félags stjórnmálafræðinga auk þess sat hún í ráðskonuráði Femínistafélags Íslands. Árið 2013 fór hún síðan til Bandaríkjanna þar sem hún tók meistaragráðu í kosninga- og herferðastjórnun frá Fordham háskólanum í New York ásamt því að hluti námsins var tekinn við Columbia háskólann í sömu borg.

„Þegar ég kláraði námið fékk ég vinnu í ráðgjafafyrirtæki hjá fyrrverandi prófessornum mínum, sem var með fullt af verkefnum á sínum snærum,“ segir Bryndís sem tók í kjölfarið þátt í kosningaherferðum og baráttum ýmissa samtaka og oft hafi eitt verkefni leitt af öðru.

„Það virkar ekki þannig að þú getir unnið fyrir hvern sem er, þá sérstaklega ekki í Bandaríkjunum. Þar ertu annaðhvort demókrata- eða repúblikanamegin. Í Evrópu er það svipað og hef ég til að mynda einungis unnið fyrir demókrata vestanhafs og sósíaldemókrata austan hafs.“

Meðal herferða sem Bryndís hefur tekið þátt í var kjör núverandi borgarstjóra í New York, Bill de Blasio, en einnig fyrir forsetaframbjóðanda í Frakklandi, fyrir regnhlífarsamtök evrópskra jafnaðarmanna, UN Women í New York borg og nú síðast fyrir sænsku verkalýðshreyfinguna. „Þar fer verkalýðshreyfingin í kosningabaráttu með jafnaðarmönnum.“

Bryndís nýtur þess í dag að vera flutt heim ásamt börnum sínum tveimur sem eru 7 og 12 ára. „Það er frábært að geta gefið börnunum tækifæri á að upplifa að alast upp á Íslandi við allt frjálsræðið sem er hér, eins og til dæmis að geta bara hlaupið milli húsa til að heimsækja vini og ættingja.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.