*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 4. nóvember 2018 16:05

Saknar stundum atsins

Arnar Laufdal Ólafsson framkvæmdastjóri Kaptio rak skemmtistaðinn Broadway í áratug en stýrir nú hugbúnaðargerð.

Höskuldur Marselíusarson
Kaptio, félag Arnars Laufdal Ólafssonar og Ragnars Ægis Fjölnissonar, var að sögn Arnars fyrst til að koma með lausn ofan á Salesforce-kerfið fyrir ferðamannaiðnaðinn, en hann segir enn mikið um að upplýsingar séu færðar handvirkt milli kerfa í geiranum.
Haraldur Guðjónsson

Það má segja að Arnar Laufdal Ólafsson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Kaptio, hafi alla sína ævi verið viðloðandi rekstur en hann tók við rekstri skemmtistaðarins Broadway af föður sínum, athafnamanninum Ólafi Laufdal, og rak hann í tíu ár frá aldamótunum.

Hann viðurkennir að það séu töluverð viðbrigði að breyta svona algerlega um rekstur en í dag rekur hann hugbúnaðarfélagið Kaptio en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var félagið valið Vaxtasproti ársins eftir mikinn vöxt „Þetta er töluvert öðruvísi, það er ekki eins mikið at í þessum tölvugeira, en áður var ég að hitta töluvert mikið af fólki í hverri einustu viku. Ég sakna þess stundum, ég get alveg sagt það, “ segir Arnar.

„Það sem mér finnst skemmtilegt og ég geng algerlega fyrir er að sjá ánægða viðskiptavini. Ég kem úr þjónustugeiranum og þegar allt gengur vel við að halda skemmtilega viðburði þá fær maður gæsahúð við að sjá að allt hafi gengið svona vel og sjá alla brosandi og ánægða. En þetta er það sama í þessu, þegar allt gengur vel og viðskiptavinirnir eru ánægðir þá líður manni vel. Þetta snýst hvort tveggja um sköpun, ég þurfti alltaf að vera að koma með nýja atburði og sýningar, sem maður gerði með skapandi hópi af fólki. Þó að við séum að búa til öðruvísi þjónustu, þá þarf gríðarlega sköpunargáfu til að búa til góðan hugbúnað og svo þarf að koma hugmyndinni frá sér og til viðskiptavinarins. Að mörgu leyti er þessi ferill því ekkert mikið öðruvísi.“

Getur séð hagnaðarbilið í kerfinu

Arnar segir aðalvöru félagsins vera Kaptio Travel sem er platform, eða verkvangur eins og það heitir á íslensku „Hún gerir ferðaskipuleggjendum kleift að hanna og styðja við viðskiptaferla sína, þ.e. hvernig upplýsingar flæða á milli viðskiptavina, starfsfólks og birgja. Sem dæmi þá getur verið flókið og tímafrekt að senda tilboð og skipuleggja ferð fyrir 50 manna hóp en þá þarf að huga að gistingu og setja saman dagskrá, eins og að fara út að borða, ferðir milli staða, jafnvel flug og ýmislegt. Kerfið okkar heldur utan um kostnaðar- og söluverð og styður mismunandi notendaviðmót aðila eftir hlutverkum og stöðu í kaupferli ásamt því að vera jafnframt það kerfi sem endanlegar bókanir sitja í,“ útskýrir Arnar.

„Ein lykilvirknin er að hægt er að setja saman tilboð í kerfinu sem sýnir þér hvað þú ert með mikið hagnaðarbil og þá geturðu sent út tilboð til viðskiptavinarins. Þegar tilboðinu er svo tekið er það gert í gegnum kerfið og þú getur átt öll samskipti við viðskiptavininn í gegnum það í stað þess að verið sé endalaust að senda einhver pdf-skjöl á milli sem þarf að slá handvirkt inn í excel eða einhver þannig kerfi.“

Arnar rak skemmtistaðinn Broadway í áratug áður en hann hóf að starfa sem hótelstjóri hjá Grand hótel árið 2010. „Ég hef svo sem alltaf verið svona þenkjandi, að láta hugbúnað virka í rekstri, og skrifaði ég mitt fyrsta viðskiptasamskipakerfi árið 1995 í Microsoft Access, en ég er ekki forritari. Ragnar er aðalhönnuðurinn á kerfinu og eldklár í því öllu saman en ég hef verið að reka fyrirtæki í þessum afþreyingar- og ferðaiðnaði og hef ákveðna sýn á það hvernig á að auðvelda viðskiptavinum að fá það sem þeir vilja út úr kerfum,“ segir Arnar.

„Þetta verkefni er svona samspil milli mín og Ragnars, ég sé meira um viðskiptahliðina, en hann er að hanna vöruna og hefur sú verkaskipting verið heilladrjúg. Þegar við byrjuðum árið 2012 þá vorum við með um 10 milljónir króna í tekjur. Það sem af er ári erum við komin með mun meira en allt árið í fyrra og við munum væntanlega tvöfalda tekjurnar frá árinu 2017. Vöxturinn okkar er mestur í Bandaríkjunum og Kanada, en Salesforce er stærst þar. Lausnin er byggð ofan á Salesforce-platformið en það eru til lausnir ofan á það fyrir ýmsan iðnað. Við erum sterkastir í ferðamennsku fyrir ferðaskipuleggjendur en við vorum fyrstir inn á þann markað.“

Fjárfesting fyrir hálfan milljarð

Arnar segir það geta verið bæði kostur og galli að vera fyrstir inn á markaðinn því þó oft sé talað um haginn af því að fara fyrstir inn þá er að hans mati mikilvægara að setja fram réttu lausnirnar.

„Við höfum séð að það eru gríðarleg tækifæri til að valda umróti í þessum ferðatækniiðnaði, enda eins og ég sagði áðan er ofboðslega stór markaður þarna úti. Flest fyrirtæki í þessum geira eru með gömul kerfi sem eru ekki opin og gefa ekki tækifæri til að útfæra stafrænar lausnir til bæði kúnnanna og birgjanna. Við höfum í dag fengið í heild um 500 milljónir frá ýmsum fjárfestum sem sýnir hve mikla trú þeir hafa á þessu verkefni. Við skiluðum í fyrsta sinn hagnaði í fyrra, um 30 milljónum og í ár verður hann töluvert hærri,“ segir Arnar.

„Helstu fjárfestar okkar eru Frumtak 2, sem er frumkvöðlafjárfestingarsjóður sem hefur fengið fjárfestingu frá lífeyrissjóðunum, og Nýsköpunarsjóður sem er í eigu ríkisins, en honum kynntumst við í gegnum þátttöku okkar í Startup Reykjavík. Auk þess höfum við fengið töluvert af einkafjárfestum til þess að koma í þetta ferðalag með okkur, en við Ragnar eigum stóran hluta í félaginu sjálfir. Hvort við leitumst svo eftir frekari fjármögnun eða horfum meira til innri vaxtar er auðvitað alltaf spurningin í svona starfsemi. Við munum þurfa að vega og meta kosti okkar, það er hversu hratt í uppbyggingunni við viljum fara og hversu hratt skynsamlegt er að fara.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.