Velta í dagvöruverslun dróst saman um 3,6% á föstu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,6% á breytilegu verðlagi.

Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam samdráttur í veltu dagvöruverslana í nóvember 3,5% frá sama mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í mánaðarlegri smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst. Þá kemur jafnframt fram að verð á dagvöru hækkaði um 10,5% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Fram kemur að sala áfengis minnkaði um 9,3% í nóvember miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og jókst um 15,3% á breytilegu verðlagi.

Fataverslun var 9,6% minni í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 8,9% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Velta skóverslunar jókst um 6,0% í nóvember á föstu verðlagi og um 26,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta húsgagnaverslana minnkaði þó mest og var 33,5% minni í nóvember en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi og 23,5% minni á breytilegu verðlagi.

Þá dróst sala á raftækjum í nóvember saman um 21,6% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 2,6% á breytilegu verðlagi á sama tímabili.

Rannsóknarsetur segir að töluverður samdráttur sé enn í raunveltu smásöluverslunar á milli ára sem komi sérstaklega fram í minni kaupum á dýrum og varanlegum vörutegundum. Þannig keyptu landsmenn minna í nóvember síðastliðnum en í nóvember í fyrra þó veltan hafi aukist í krónum talið.

Þá segir Rannsóknarsetur að vísbendingar séu um að meira jafnvægi fari að komast á einkaneyslu eftir samdráttarskeið sem hefur staðið í meira en ár. Þannig fari verðbólga hjaðnandi og væntingar neytenda þokist í átt til meiri jákvæðni.

Sjá skýrsluna í heild sinni hér.