Breska verslunarkeðjan Sainsbury greindi frá því í gær að sala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefði aukist um 5,1% samanborið við sama tímabil og í fyrra, en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir aðeins meiri sölu. Framkvæmdastjóri félagsins, Justin King, sagðist vera ánægður með afkomuna í upphafi ársins en varaði hins vegar við því að samkeppnisumhverfið á smásölumarkaðinum myndi verða erfitt á næstu misserum, meðal annars sökum þess að búist er við minnkandi einkaneyslu samhliða fyrirsjáanlegum stýrivaxtahækkunum Englandsbanka á árinu. Afkomutilkynning Sainsbury kemur aðeins degi eftir að keppinautur þess, Tesco, greindi frá því að sala í öðrum vörutegundum en mat hefði valdið vonbrigðum.