Sala á nýjum og ódýrari iPhone-símum Apple er undir væntingum. Símarnir komu á markað í september og var vonast til þess að þeir myndu efla sölu á farsímum Apple til muna. Sérstaklega var horft til þess að símarnir myndu höfða til þeirra sem vilja eignast síma frá Apple en sitja ekki á fúlgum fjár.

iPhone 5C-símar Apple eru nokkuð ódýrari en S-módel íPhone-símans. Hér á landi kosta þeir um og yfir 120 þúsund krónur en S-týpan upp undir 170 þúsund krónur.

Breska dagblaðið Guardian rifjar upp í tengslum við uppgjör Apple sem birt var í gærkvöldi að frá því hafi verið greint í bandaríska dagblaðinu The Wall Street Journal í þessum mánuði að stjórnendur Apple hafi óskað eftir því við framleiðendur iPhone 5C að þeir dragi úr framleiðslu á símanum enda salan á iPhone 5S meiri en á ódýrari símunum.

Tim Cook, forstjóri Apple, sagði á uppgjörsfundi fyrirtækisins með markaðsaðilum í gær ekki hafa verið horft til þess að nýta 5C-símann til að laða að nýja viðskiptavini. Nýir viðskiptavinir kjósi fremur að kaupa iPhone 4S. Til samanburðar kostar nýr iPhone 4S tæpar 100 þúsund krónur hjá farsímafyrirtækjum hér á landi.