Össur hefur birt uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2015.

Sala Össurar nam 117 milljónum Bandaríkjadala, eða 15,4 milljarðar íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi og jókst um 3% frá fyrra ári mælt í staðbundinni mynt. EBITDA félagins nam 25 milljónum Bandaríkjadala, eða rúmlega 3,1 milljarði íslenskra króna.

Tekjur félagins námu 14 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 1,8 milljarði króna, borið saman við 16 milljónir dala á fyrra ári.

Styrking Bandaríkjadals gangvart helstu myntum hafði neikvæð áhrif á sölu og EBITDA, samanborið við þriðja ársfjórðung 2014. Gengisáhrifin á sölu voru neikvæð um 11 milljónir Bandaríkjadala og um tvær milljónir dala á EBITDA.

„Niðurstöður ársfjórðungsins eru í takt við væntingar. Líkt og í síðustu fjórðungum hefur gengisþróun haft neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöður. Sala á spelkum og stuðningsvörum var góð á öllum mörkuðum, drifin áfram af hágæðavörum og vörunýjungum. Sala á stoðtækjum stóð í stað, en hafa ber í huga að sala á þriðja ársfjórðungi í fyrra var mjög góð.“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.