„Þetta gengur í gegn um leið og Samkeppniseftirlitið hefur lokið athugun á kaupunum,“ segir Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir einn eigenda Skeljungs. Hún og Guðmundur Örn Þórðarson eiga saman 92% hlut í Skeljungi. Samningur um kaup framtakssjóðsins SÍA II, sem rekinn er af sjóðsstýringarfyrirtækinu Stefni, dótturfélags Arion banka, var undirritaður í vor. Í samningnum er fyrirvari um könnun Samkeppniseftirlitsins á viðskiptunum og nýjum eigendum félagsins. Þá er sömuleiðis verið að kanna tengsl þeirra við önnur olíufélög. Svanhildur vill ekki gefa upp hvað SÍA II greiðir fyrir Skeljung.

Svanhildur segir ekki liggja fyrir hvenær búist sé við því að skoðun Samkeppniseftirlitsins muni liggja fyrir.

Greiða 150 milljónir í arð

Hagnaður Skeljungs dróst nokkuð saman á milli ára í fyrra. Hann nam 49 milljónum króna borið saman við 629 milljóna króna hagnað árið 2011. Tekjur námu rúmum 33,5 milljörðum króna samanborið við 31,5 milljarð árið 2011 en aukningin nemur 6% á milli ára. Upplýsingar um eignir Skeljungs eru ekki samanburðarhæfar á milli ára þar sem annars vegar er um móðurfélag að ræða og hins vegar samstæðureikning.

Fram kemur í ársreikningnum að stjórn Skeljungs hafi lagt til að hluthöfum verði greiddar 150 milljónir króna vegna afkomunnar árið 2011.

Fram kemur í ársreikningnum að Skeljungur keypti í fyrra 34% eignarhlut í færeyska oliudreifingarfyrirtækinu Magn. Félag þeirra Svanhildar og Guðmundar átti færeyska félagið að fullu. Kaupverðið nam rúmum 1,3 milljörðum króna.