Twitter hefur viðræður við aðila innan tæknigeirans í tilraun til þess að selja fyrirtækið. Vöxtur Twitter hefur ekki verið minni síðan félagið fór á markað árið 2013. Frá þessu er greint á vef Reuters .

Samkvæmt heimildarmönnum innan tæknigeirans er fyrirtækið meðal annars í viðræðum við Alphabet, móðurfyrirtæki Google — ásamt því að ræða við fyrirtækið Salesforce.com. Líklegt er að það berist tilboð í fyrirtækið fyrr frekar en síðar.

Forsvarsmenn Alphabet og Twitter hafa enn ekki svarað fyrirspurnum þessa efnis. Síðastliðin misseri hafa verið miklar sögusagnir um yfirvofandi sölu fyrirtækisins vegna slæmrar stöðu fyrirtækisins.

Samkeppnisfyrirtæki á borð við Instagram og Snapchat sækja í sig veðrið og því verður sífellt erfiðara fyrir Twitter að fóta sig á markaði.