Þeir viðskiptavinir Eldum rétt sem ætluðu að panta matarpakka í fyrrakvöld urðu frá að hverfa þar sem fyrirtækið þurfti að loka fyrir pantanir vegna mikillar eftirspurnar. Á þriggja vikna tímabili hefur sala á matarpökkum aukist um 43% og heimsendingum á sama tímabili fjölgað um 70%.

Kristófer Júlíus Leifsson , framkvæmdastjóri Eldum rétt, segir starfsmenn hafa tekið eftir miklum breytingum á pöntunarmynstri viðskiptavina.

„Við sjáum að fólk er að nýta sér alla möguleika til að létta sér lífið á þessum erfiðu tímum og finnum því fyrir aukinni aðsókn í pakkana okkar og eins að viðskiptavinir eru að kaupa til dæmis fleiri en einn pakka til að tryggja sér mat yfir fleiri daga,“ segir Kristófer Júlíus.

„Þetta er mikil áskorun og við erum á fullu að vinna að því að straumlínulaga ferla, ráða inn fleira fólk og einfalda vinnsluna eins og hægt er, til dæmis með því að minnka vöruúrvalið tímabundið. Við þurfum einfaldlega að aðlaga þjónustu okkar að þessu tímabundna ástandi sem við erum í sökum veirunnar“.

Það er til skoðunar hjá fyrirtækinu að fjölga afhendingarstöðum til að hægt verði að þjónusta fleiri.

„Við viljum auðvitað og erum að reyna að tryggja að allir sem vilja nýta sér þjónustu okkar geti það. Það er ekki hlaupið að því að gera stórtækar breytingar þessa dagana þar sem að það þarf auðvitað að taka ástandinu mjög alvarlega. Við erum samt að leita allra leiða en eins og staðan er akkúrat núna eru matarpakkar fyrir næstu viku uppseldir,“ segir Kristófer.