Salan á Kaupási og tengdum verslunum er á lokasprettinum, að því er fullyrt er í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að kaupendir muni leggja til um 8 milljarða króna í eigið fé og yfirtaka 18 milljarða skuldir.

Fullyrt er í blaðinu að á meðal þeirra sem kaupa séu Þórður Már Jóhannesson, Guðmundur Ásgeirsson, fyrrverandi aðaleigandi Nesskipa, Hreggviður Jónsson og Jón Björnsson sem sá um fjárfestingar Baugs á Norðurlöndunum. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá mun Jón Helgi Guðmundsson selja allar eignir sínar nema Byko. Á meðal eigna sem verða seldar eru Krónan, Nóatún og Intersport.

Ásamt fjórmenningunum er það sjóður á vegum Stefnis sem kaupir. Eftir viðskiptin má gera ráð fyrir að stærstur hlutinn verði í eigu lífeyrissjóða.