Salan á Skeljungi eru viðskipti ársins að mati dómnefndar Markaðarins, viðskiptarits Fréttablaðsins. Er það einkum mikill hagnaður seljenda, hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Arnar Guðmundssonar, sem skýrir valið.

Þau keyptu, ásamt Birgi Bieltvedt, 51% hlut í Skeljungi af Glitni í ágúst 2008 og nam kaupverðið 1,5 milljarði króna. Þau keyptu svo afganginn af hlut bankans á um milljarð króna árið 2010 og árið 2011 keyptu þau 8% hlut Birgis.

Í október greindi Morgunblaðið frá því að Svanhildur Nanna og Guðmundur Örn hefðu selt hlut sinn fyrir tíu milljarða króna til framtakssjóðsins SÍA II, sem Stefnir rekur. Með í kaupunum fóru fasteignir Skeljungs og færeyska olíudreifingarfélagið P/F Magn. Virðisaukningin er allnokkur því fyrir hlutinn hafa þau hjón líkast til greitt tvo til þrjá milljarða.