Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 163,5 milljörðum króna og hækkar um tæp 13% frá fyrra ári. Álagðir tekjuskattar til ríkissjóðs skiptast í almennan og sérstakan tekjuskatt annars vegar og fjármagnstekjuskatt hins vegar en útsvarið er tekjustofn sveitarfélaga.

Heildarfjöldi framteljenda við álagningu árið 2006 er 241.344 og hefur þeim fjölgað um 6.900 einstaklinga, eða 2,9% frá fyrra ári. Svo mikil fjölgun framteljenda hefur ekki sést áður og stafar hún af aðfluttu vinnuafli sem telur fram til skatts hér á landi.

Almennan tekjuskatt, samtals 72,6 milljarða króna, greiða 163.450 einstaklingar, eða ⅔ hlutar framteljenda. Skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur hækkað um 4,3% milli ára, mun minna en gjaldstofninn, sem hækkaði um tæp 9%, enda lækkaði tekjuskattshlutfallið úr 25,75% í 24,75% í upphafi ársins 2005.