Hagvöxtur á evrusvæðinu mældist 1,4% á ársgrundvelli að meðaltali innan aðildarríkja Evrópusambandsins í september. Hagvöxtur á evrusvæðinu var jafn mikill á sama tíma, samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins sem birtar voru í dag. Hagvöxtur var kröftugastur á fyrri hluta árs og dró úr honum eftir því sem á leið. Því til staðfestingar óx hagkerfi efnahagssvæðisins aðeins um 0,2% á þriðja ársfjórðungi og er búist við að draga muni hratt úr hagvexti á meginlandinu á yfirstandandi ársfjórðungi.

Talsverður munur er á milli aðildarríkja Evrópusambandsins. Mestur var hann í stærstu löndunum, Frakklandi og í Þýskalandi. Á sama tíma var 5,2% samdráttur í Grikklandi á þriðja ársfjórðungi sem þó var skárra en 7,4% samdráttur á öðrum ársfjórðungi.

Til marks um það sem koma skal bendir BBC á að Mario Draghi, sem nýsestur er í stól bankastjóra evrópska seðlabankans, telji líkur á að smávægislegt samdráttarskeið gangi í garð þegar nær dragi áramótum.