Hagvöxtur í Suður-Afríku var neikvæður um 0,7% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Í frétt Bloomberg segir að tölurnar gangi þvert á spár greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir 1% hagvexti í landinu. Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem neikvæður hagvöxtur er í landinu en hagvöxtur var neikvæður um 0,3% á síðustu þremur mánuðum síðasta árs.

Samdráttur var í öllum atvinnugreinum landsins fyrir utan landbúnað og námugröft. Ástæða samdráttarins er rakinn til pólitískrar óvissu í landinu en forseti landsins rak meðal annars fjármálaráðherra landsins í mars síðastliðnum sem var til þess að lánshæfismat landsins lækkaði um tvo flokka.

Gengi Suður-Afríska randsins hefur lækkað um 1,4% gagnvart dollara það sem af er degi.