Ekki er ráðlegt að íslenskir bankar og fjármálafyrirtæki ráðist í viðamikið sameiginlegt kynningarátak til að koma á framfæri upplýsingum um styrkleika sína á erlendri grund, að mati háttsetts aðila í bankakerfinu sem Viðskiptablaðið ræddi við. „Það hefur alltaf verið viðhorf okkar að hver og einn geri þetta vel fyrir sig, en það er ekki trúverðugt að bankarnir ráðist sameiginlega í allsherjar kynningarátak. Það væri veikleikamerki fremur en hitt,” segir hann.

Ríkið þurfi hins vegar að gera sérstakt átak til að kynna íslenskt efnahagslíf ytra. Meira skipti þó aðgerðir stjórnvalda til að auka traust erlendra markaða á Íslandi og þeim fyrirtækjum sem þaðan koma.

Jákvæðra aðgerða stjórnvalda þörf

“Menn tala og kynna sig ekki út úr þessum málum núna, heldur kallar ástandið á jákvæðar aðgerðir á mörgum stöðum,” segir heimildarmaður Viðskiptablaðsins. „Skattalækkanirnar og gerð kjarasamninga voru til góðs, útgáfa ríkisbréfanna sömuleiðis. Við þurfum þó fleiri aðgerðir af hálfu ríkisins til að greiða fyrir því að Seðlabankinn geti með trúverðugum hætti lækkað vexti. Ríkið gæti t.d. gert það með því að skylda Íbúðalánasjóð til að spila með varðandi vaxtaákvarðanir. Allir verða að leggjast á eitt til að hjálpa Seðlabankanum að taka þessa ákvörðun, því að auðvitað þarf hann að halda trúverðugleika sínum og að stöðugleikinn sé ljós.”

Forsætisráðuneytið hefur ráðið Finn Sveinbjörnsson, fyrrverandi bankastjóra Icebank, í tímabundið verkefni til að kortleggja hvernig íslensk stjórnvöld geti komið að miðlun upplýsinga um íslensk efnahagsmál. Heimildarmaður blaðsins fagnar því og segir viðbrögð forsætisráðherra hafa verið hröð og með ráðningu sérstaks manns í verkefnið verði ríkið skilvirkara í að koma upplýsingum á framfæri. Kynningarmálin séu hins vegar í ágætu horfi hjá bönkunum frá því að átak var gert í þeim efnum árið 2006.

„Við í bönkunum höfum margir hverjir ekki trú á því að vandinn felist í upplýsingaflæðinu sem slíku, og af hálfu fjármálafyrirtækjanna teljum að flæðið sé í góðu lagi til þeirra aðila sem skipta máli ytra. Hins vegar vanti fyrst og fremst jákvæðar viðbótaraðgerðir af hálfu stjórnvalda og að það kynni viðhorf sín og efnahagslífið og þær aðgerðir sem gripið er til á hverjum tíma. Það er sjálfsagt að kynna vel viðhorf íslenska ríkisins og efnahagslíf og þær aðgerðir sem gripið er til á hverjum tíma. Það er og jákvætt að samræma betur hvað allir eru að gera.”