*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 19. október 2019 13:09

Sameinuð félög með sömu rætur

Ný sameinuð félög, Nox Medical og FusionHealth, eiga bæði rætur sínar að rekja til Flögu.

Sveinn Ólafur Melsted
Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical.
Gígja Einars

Pétur Már Halldórsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri Nox Medical í rúmlega átta ár. Á þeim tíma hefur félagið vaxið hratt, starfsmönnum hefur fjölgað úr 10 í rúmlega 50 og veltan fimmtánfaldast. Nú hefur Nox tekið stórt skref á vaxtarferli sínu þar sem Nox Medical og systurfélag þess, Fusion Health hafa sameinast undir nafninu Nox Health.

„Leiðir okkar Nox Medical lágu saman árið 2011, en þá var helsta verkefni félagsins að byggja upp dreifinet fyrir vörur þess og þá hafði Sveinbjörn Höskuldsson, einn af stofnendum Nox Medical og fyrrum samstarfsmaður minn hjá Flögu, samband við mig til að kanna hvort ég vildi koma með þeim í spennandi uppbyggingarstarf með stofnendum Nox. Mér þótti þetta ákaflega spennandi, ákvað að slá til og nú átta árum síðar starfa ég enn hjá fyrirtækinu og hef aldrei verið spenntari fyrir verkefninu en einmitt nú," segir hann.

Að sögn Péturs eiga Nox Medical og FusionHealth rætur sínar að rekja til fyrirtækisins Flögu.

„Sigurjón Kristjánsson, forstjóri FusionHealth, hóf störf hjá Flögu fyrir um aldarfjórðungi síðan og var einn fyrsti starfsmaðurinn hjá Dr. Helga Kristbjarnarsyni, stofnanda Flögu. Helgi var mikill frumkvöðull og skynjaði á þessum tíma vel tækifærin sem lágu í því að hanna lækningavöru sem gerði læknum kleift með aðstoð stafrænnar tækni og tölva að greina svefnvandamál, með einfaldari og nákvæmari hætti en áður hafði þekkst. Fram að þeim tíma höfðu svefnrannsóknir verið unnar á pappír og sérfræðingar þurftu því að fletta í gegnum mörg hundruð blaðsíður úr síritum sem tengdir voru við sofandi einstakling, til að fá úr því skorið hvort viðkomandi ætti við svefnvandamál að stríða. Sigurjón Kristjánsson, ekki síðri frumkvöðull en Helgi, leiddi vöruþróun Flögu í um áratug, en á þeim tíma náði Flaga að verða leiðandi fyrirtæki í heiminum á sínu sviði.

Ég kynntist Flögu fyrst þegar ég hóf þar störf sem sölustjóri árið 2001. Árið 2005 verða breytingar á yfirstjórn félagsins og bandarískur forstjóri ráðinn til að leiða það. Sama ár er öll starfsemi Flögu flutt úr landi og eftir situr að um 100 starfsmenn á Íslandi missa vinnuna. Sigurjón Kristjánsson sagði á þessum tíma skilið við Flögu. Hann sá engin vandamál, bara risavaxið tækifæri, söðlaði um og flytur til Atlanta í Bandaríkjunum, með það að markmiði að byggja upp svefnrannsóknatengt þjónustufyrirtæki og takast þannig á við þetta gríðarstóra tækifæri sem fólst í því að bjóða fyrirtækjum upp á lausnir sem greina og meðhöndla svefnvanda þeirra sem glíma við svefnraskanir. Þannig hófst vegferð FusionHealth.

Ári síðar koma sjö af fyrrverandi starfsmönnum Flögu saman og ákváðu að halda áfram að starfa á þessu sviði, og stofnuðu því Nox Medical. Markmið þeirra var að endurbæta og framleiða næstu kynslóð af lækningartækjum sem greina svefn og svefnraskanir. Fyrsta framleiðsluvara félagsins kemur á markað 2008 og allar götur síðan hefur félagið vaxið hratt og dafnað frá því að vera sjö manna fyrirtæki í bílskúr, en hefur nú laðað til sín einvala hóp gríðarlega hæfileikaríkra starfsmanna sem mynda 50 manna teymi sem á sér ekki hliðstæðu í þessum geira," segir Pétur.

Nánar er rætt við Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér