Viðskipta- og þróunarstofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur varað Bandaríska seðlabankanum og öðrum seðlabönkum heimsins við áframhaldandi vaxtahækkunum þar sem hækkanirnar gætu leitt af sér samdrátt í heimshagkerfinu. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Viðvörunin kom fram á ráðstefnu stofnunarinnar, sem haldin var í gær. Þá var því haldið fram að áframhaldandi vaxtahækkanir Bandaríska seðlabankans myndu valda þróunarríkjum verulegum skaða. Í stað vaxtahækkana leggur stofnunin meðal annars til verðþaks á ofurhagnað orkufyrirtækja.

Stofnunin áætlar að eins prósentu stýrivaxtahækkun Bandaríska seðlabankans lækki landsframleiðslu í öðrum ríkum löndum um hálft prósent en í fátækum löndum um 0,8% á næstu þremur árum. Vaxtahækkanirnar sem Bandaríski seðlabankinn hefur nú þegar lagst í á þess ári muni draga úr landsframleiðslu fátækra ríkja um 360 milljarða dala á næstu þremur árum.

Bandaríski seðlabankinn hefur hækkað vexti um 75 punkta, þrjá vaxtaákvörðunarfundi í röð, og eru vextirnir nú á bilinu 3,0%-3,25%. Stýrivextir bankans voru nálægt núlli í byrjun árs. Talið er líklegt að bankinn hækki vextina um 75 punkta á næsta fundi peningastefnunefndarinnar, og að vextirnir verði á bilinu 4%-4,5% í lok árs.

Evrópski seðlabankinn og Englandsbanki hafa einnig staðið fyrir miklum vaxtahækkunum að undanförnu til að stemma stigu við verðbólgunni. Í Evrópu og Englandi er verðbólgan drifin áfram af hækkandi matvæla- og orkuverði.