„Innri vefur skiptir gríðarlega miklu máli upp á upplýsingaflæði innan fyrirtækja" segir Díana Dögg Víglundsdóttir, vefstjóri hjá N1. Hún segir að góðan innri vef stytta boðleiðir og styrkja starfsandann.  N1 tók nýverið í notkun nýjan innri vef. Undirbúningurinn tók átta mánuði, þar af tók þarfagreining þrjá mánuði og smíðin fimm mánuði.

Díana Dögg segir að það sem geri nýja vefinn sérstakan sé að hann sé samfélagsmiðaður, líkt og Facebook. Starfsmenn geti sett skilaboð inn á vefinn, deilt fréttum eða jafnvel bröndurum og uppskriftum. Allir starfsmenn N1 geta skrifað á innri vefinn. Þeir geta beint ummælum sínum til allra starfsmanna fyrirtækisins eða til þeirra sem starfa á þeirra starfsstöð. Starfsmenn geta skráð sig í hópa eins og t.d. heilsuhóp, gönguhóp, golfhóp og svo framvegis. Hver og einn þessara hópa hefur síðan sitt svæði á vefnum.

„Innri vefurinn er sjálfstæður og ekki tengdur neinu öðru kerfi," segir Díana Dögg og bætir við að áður hafi innri vefir oft verið hluti af öðru kerfi eins og til dæmis skjalakerfi. Það sé ekki reyndin hjá N1. Hún segir að gamli innri vefur fyrirtækisins hafi verið þannig að aðeins hafi verið hægt að skoða hann í vinnunni. Nýja vefinn geti allir skoðað alls staðar og í öllum tækjum.

Díana Dögg segir að í fyrirtæki eins og N1 sé mjög mikilvægt að hafa góðan innri vef. Fyrirtækið sé með 720 starfsmenn sem starfi í verslunum, á verkstæðum, þjónustustöðvum og skrifstofum víða um land. Vefurinn tengi alla þessa starfsmenn saman.