Samherji hf. hagnaðist um 7,8 milljarða króna á síðasta ári, samanborið við 9 milljarða árið 2019. Sala félagsins lækkaði um 8,5% frá fyrra ári, í evrum talið, og nam 228 milljónum evra eða um 46,5 milljörðum króna, umreiknað á meðalgengi síðasta árs. Þetta kemur fram á heimasíðu Samherja en útgerðarfyrirtækið birtir þar lykiltölur úr ársreikningi fyrir árið 2020.

Ársuppgjörið var kynnt á aðalfundi Samherja sem fram fór í gær. Á aðalfundinum var ákveðið að greiða ekki út arð til hluthafa vegna síðasta árs. Samherji hf. heldur utan um starfsemi fyrirtækisins á Íslandi og Færeyjum en systurfélagið Samherji Holding ehf. inniheldur erlenda starfsemi Samherja. Ekki hefur skilað ársreikningi Samherja Holding, bæði fyrir árið 2019 og 2020.

Áhrif hlutdeildarfélaga í rekstrarreikningi námu 3,1 milljarði króna. Samherji er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með 32,6% hlut að markaðsvirði 46,4 milljörðum króna í dag. Samherji er einnig sjöundi stærsti hluthafi Haga með 4,4% hlut.

Eignir Samherja námu 109,4 milljörðum króna í árslok 2020 og hækkuðu um 12,6 milljarða frá fyrra ári. Eigið fé nam 64,4 milljörðum, skuldir 32,4 milljörðum og eigið fé því 66,6%.

Samherji tekur fram að fyrirtækið er í hópi stærstu skattgreiðenda landsins. Samherji og starfsmenn greiddu fimm milljarða króna til hins opinbera á Íslandi í ár.

Félagið tilkynnti í maí 2020 að aðaleigendur Samherja hf., þau Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Kristján Vilhelmsson, Kolbrún Ingólfsdóttir og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri hefðu framselt hlutabréfaeign sína í félaginu til barna sinna.

Eftir breytingarnar voru Baldvin Þorsteinsson og Katla Þorsteinsdóttir stærstu hluthafar Samherja hf. með 43% hlut samanlagt. Dagný Linda Kristjánsdóttir, Halldór Örn Kristjánsson, Kristján Bjarni Kristjánsson og Katrín Kristjánsdóttir áttu í kjölfarið samtals 41,5% hlutafjár Samherja hf.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja:

„Þegar litið er til síðasta árs, má segja að reksturinn hafi verið hálfgerð rússibanareið vegna áhrifa heimsfaraldursins. Vegna þessa reyndi verulega á samstöðu allra og útsjónarsemi. Okkur tókst að halda úti skipaflotanum, vinnslunum og annarri starfsemi, þannig að reksturinn hélst svo að segja óbreyttur. Þetta er afrek samstillts starfsfólks, leyfi ég mér að fullyrða.

Ágætt dæmi um þær áskoranir sem við tókumst á við er vinnsluhúsið á Dalvík, sem var tekið í notkun fyrir rúmu ári síðan. Með nýjum búnaði og gerbreyttri tækni komu engir utanaðkomandi sérfræðingar í húsið mánuðum saman, áskoranir starfsfólksins voru því margar en samt sem áður var slegið framleiðslumet á síðasta fiskveiðiári. Íslenskt hugvit er áberandi í húsinu, svo og framleiðsla flókins búnaðar. Fiskvinnslurnar okkar vinna að stórum hluta gæða afurðir sem fara beint á borð neytenda víðs vegar um heiminn.

Annað gott dæmi er koma nýs uppsjávarskips Samherja, Vilhelms Þorsteinssonar EA fyrr á þessu ári, allar aðstæður við smíði skipsins voru krefjandi vegna heimsfaraldursins. Vilhelm er án efa eitt glæsilegasta skip íslenska flotans og íslensk hátækni er áberandi um borð, auk þess að allur aðbúnaður er góður. Með tilkomu þessa skips dregur verulega úr olíunotkun þar sem öll hönnun og búnaður miðast við að minnka kolefnissporið.“