Í dag var undirritað samkomulag milli lyfjafyrirtækisins GlaxoSmithKline (GSK) og sóttvarnalæknis sem kveður á um kaup heilbrigðisyfirvalda á bóluefni gegn inflúensuveiru H5N1, fuglainflúensu sem GSK hefur nýverið hafið framleiðslu á.

Hjörleifur Þórarinsson framkvæmdastjóri GlaxoSmithKline sagði í samtali við vb.is að hver skammtur kostaði um 700 krónur. "Sem er svipað verð og í samningi sem gerður var fyrr á þessu ári," sagði Hjörleifur.

Samkomulagið er liður í viðbúnaðaráætlun heilbrigðisyfirvalda gegn heimsfaraldri inflúensu en ætlunin er að nota bóluefnið til að bólusetja fólk sem talið er að geti smitast af H5N1 inflúensuveiru fari svo að sjúkdómurinn berist til landsins.

Heimsfaraldur inflúensu brýst út þegar nýr stofn inflúensuveiru myndast sem berst auðveldlega manna á milli. Nýr stofn getur myndast við meiriháttar breytingar á erfðaefni inflúensuveiru vegna stökkbreytingar eða við samruna fuglainflúensuveiru og inflúensuveiru í mönnum. Samruni getur orðið ef sýking með báðum veirunum verður samtímis í sama manni eða dýri.


Inflúensuveiran H5N1 er í stöðugri þróun og möguleikinn á samruna við inflúensuveiru úr dýraríkinu fer vaxandi. Að mati sérfræðinga verður að gera ráð fyrir því að veiran geti breyst og borist manna á milli. Þannig eru möguleikar á að fuglainflúensuveiran H5N1 valdi næsta heimsfaraldri inflúensu þótt ekkert sé vitað hvort það verður eða hvenær.


Frá árinu 2003 hefur inflúensa H5N1 í fuglum geisað víða um heiminn, með stöku sýkingum í mönnum. Samkvæmt upplýsingum á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar 8. október 2007 höfðu samtals 330 manns greinst með staðfesta H5N1 sýkingu og af þeim höfðu alls 202 látist.
Samningurinn kveður á um kaup á 10.000 skömmtum af H5N1 bóluefni. Hann gildir í þrjú ár og býður einnig upp á kaup á fleiri skömmtum, kjósi heilbrigðisyfirvöld það. Fyrr á þessu ári gerðu heilbrigðisyfirvöld og GlaxoSmithKline samkomulag sem kveður á um forkaupsrétt á allt að 300.000 skömmtum af bóluefni gegn heimsfaraldri inflúensu, sem GSK mun framleiða, að fengnum upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) um gerð veirustofnsins.

Miklir möguleikar með nýrri kynslóð bóluefna
Bóluefni GSK gegn fuglainflúensu og heimsfaraldri inflúensu eru skilgreind sem annarrar kynslóðar bóluefni, þar sem í þeim er að finna nýja tækni við ónæmisglæðingu. Þessi tækni er einnig notuð í nýju bóluefni gegn leghálskrabbameini frá GSK, sem væntanlegt er á markað hér á landi innan skamms og gegn malaríu sem er komið vel á veg í þróun. Ónæmisglæðirinn er sérstakt efnasamband sem eykur ónæmissvar líkamans og gerir auk þess mögulegt að veita vörn gegn náskyldum veirustofnum (s.k. krossónæmi).

Í rannsóknum GSK á bóluefni gegn fuglainflúensu sást mjög öflugt ónæmissvar hjá meira en 80% þátttakenda sem fengu 3,5 míkrógröm af H5N1 ónæmisvaka, sem var lægsti skammtur sem notaður var. Takmörkuð framleiðslugeta er algengt vandamál við framleiðslu á inflúensubóluefnum. Á grundvelli þessarar nýju tækni við ónæmisglæðingu og mögnun ónæmissvars, er kleift að nota minna magn af ónæmisvaka í hvern skammt og framleiða fleiri skammta. Þannig er því mögulegt að nýta takmarkað hráefni betur og bjóða mun fleiri einstaklingum áhrifaríka bólusetningu.