Nýjar verslanir verða opnaðar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á síðari hluta árs 2005 og fleiri bætast við 2006. Þetta er afrakstur forvals um verslunarrekstur sem efnt var til í fyrra.

Forval um verslunarrekstur var kynnt á Grand hóteli í Reykjavík í september 2004 og áhugi fyrir því reyndist afar mikill. Um 100 manns mættu til fundar og í kjölfarið var efnt til skoðunar- og kynnisferðar þátttakenda um flugstöðvarbygginguna. Um 60 umsóknir bárust síðan um verslunarrekstur af ýmsu tagi og af þeim voru 30 valdar til frekari athugunar. Stjórnendur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. áttu fund með fulltrúum allra fyrirtækjanna sem áttu þessar 30 umsóknir og fengu frá þeim viðskiptaáætlanir sem verið er að kanna frekar. Stefnt er að því að svara öllum umsækjendum fyrir lok maí og síðan hefst ferli eiginlegra samninga við þá sem valdir verða til að opna nýjar verslanir í flugstöðinni.

Þetta forval um verslunarrekstur var á sínum tíma í biðstöðu í tvö ár vegna þess að þáverandi eigendur Íslensks markaðar töldu framkvæmdina brjóta gegn lögum og kærðu til til samkeppisráðs. Deilan fór fyrir dómstóla og var leidd til lykta með dómi Hæstaréttar í apríl 2005 sem staðfesti að forvalið stæðist fyllilega lög, hvort heldur varðaði valið sjálft, forsendur þess eða umfang. Skömmu síðar skipuðust mál þannig að Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. keypti Íslenskan markað og tók við rekstri hans í júní 2005. Íslenskur markaður er nú rekinn sem dótturfélag FLE en aðeins tímabundið því yfirlýst stefna FLE er að fyrirtækin, sem samið verður við á grundvelli forvalsins frá í fyrra, taki við verslun með þær vörur sem nú eru seldar í Íslenskum markaði. Í framhaldi af því verður rekstri Íslensks markaðar hætt og félagið látið heyra sögunni til.