Nýlega var gengið frá samningi milli Volta hf, umboðsaðila fyrir Osram á Íslandi og fyrirtækja innan Samorku, sem eru samtök orku- og veitufyrirtækja, um sölu á um 50 þúsund Osram ljósaperum árlega næstu þrjú árin.

Í tilkynningu vegna samningsins segir að hann gildi til 31. des. 2010 og hafi verið gerður í kjölfar útboðs sem efnt var til fyrr á þessu ári. Alls bárust 8 tilboð frá 7 fyrirtækjum.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að framlengja samninginn um tvö ár. Um er að ræða allar perur sem Samorkufyrirtækin munu nota næstu þrjú árin og er stór hluti þeirra til götulýsingar. Þetta er stærsti einstaki samningur um sölu á ljósaperum sem Volti hefur gert til þessa en um er að ræða endingargóðar hágæða perur af mörgum gerðum. Samorkufyrirtækin sem að samningnum  standa eru Hitaveita Suðurnesja í  Reykjanesbæ, Norðurorka á Akureyri, Orkubú Vestfjarða á Ísafirði og Orkuveita Reykjavíkur í Reykjavík.