Eftir hrun, eða árið 2009, hætti Hagstofa Íslands að greina nákvæmlega ferðaþjónustuna eins og sagt var frá í Viðskiptablaðinu í febrúar. Það gerði hún vegna niðurskurðar á fjárveitingum til stofnunarinnar. Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, tilkynnti á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar að nú hefði verið ákveðið að semja á ný við Hagstofu Íslands um gerð svokallaðra ferðaþjónustureikninga.

„Með slíkum samningi erum við að taka stórt skref fram á við hvað varðar aukna þekkingu og greiningu á hinum ýmsu þáttum ferðaþjónustunnar,“ sagði Ragnheiður Elín. „Þetta eru grundvallargögn til að hafa þegar lagt er á ráðin um framtíðarstefnumótun ferðaþjónustunnar.“