Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir þau orð Finns Sveinbjörnssonar, fyrrverandi bankastjóra Arion banka, að nóg sé fyrir íslenskt efnhagslíf að vera með tvo alhliða banka, ekki taka nógu mikið tillit til samkeppnissjónarmiða. Þó bankakerfið sé hugsanlega of stórt þá sé ekki endilega lausnin að hafa tvo stóra banka frekar en þrjá, eins og Finnur gefur til kynna. Hinn rétti lærdómur af bankahruninu sé sá að hér verði til virk og eðlileg samkeppni á fjármálamarkaði eins og öðrum mörkuðum. Sú samkeppni skili sér að lokum í eðlilegri hagræðingu þar sem hagsmunir neytenda og viðskiptavina bankanna verði ofan á. "Samkeppni þarf að geta þrifist á þessum mörkuðum sem öðrum og það er ekki víst að sameining tveggja banka sé góð fyrir samkeppnina. Þá er ekki heldur víst að það verði hagræðing af því að fækka stórum bönkum á markaði úr þremur í tvo. Hagræðing þyrft að vera á grundvelli samkeppninnar svo að sú verði raunin og það er ekki víst að svo sé, þó bönkum fækki."

- Sjá nánar í viðskiptablaðinu