„Því miður virðist gangur samrunamála fyrir Samkeppniseftirlitinu oft til muna hægari en þyrfti að vera. Oft og tíðum virðist þannig afar takmörkuð rannsókn fara fram innan 25 daga frestsins og sú grunnrannsókn sem fyrr var nefnd hefst ekki að neinu marki fyrr en hinn nýi 70 daga frestur hefst,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, héraðsdómslögmaður hjá lögmannsstofunni Lex.

Heiðrún skrifar grein um Samkeppniseftirlitið í síðasta tölublað Viðskiptablaðsins. Þar segir m.a. að sú veröld sem blasti við fyrirtækjum hér á landi við hrun efnahagslífsins haustið 2008 hafi verið erfið. Erlendir birgjar hafi lokað á viðskipti við íslensk fyrirtæki, fjárhagsskuldbindingar margfölduðust, lánsfjármagn hafi verið ófáanlegt og viðskipti dregist verulega saman.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Aðstæður sem þessar eru sannanlega ekki eftirsóknarverðar og nú ríflega þremur árum eftir efnahagshrunið eru stjórnendur fyrirtækja enn að glíma við þessi vandamál að verulegu leyti. Því miður hefur fjöldi fyrirtækja ekki komist inn á beina braut og líf þeirra hefur verið á valdi lánardrottna. Af þessu hafa skapast enn önnur vandamál. Fjárhagslegrar endurskipulagningar þessara fyrirtækja er þörf. Að mörgu þarf að huga í slíku ferli, enda felast í því samofnir hagsmunir hlutaðeigandi fyrirtækja, lánardrottna og neytenda, að vel takist til,“ skrifar Heiðrún.

Hún heldur áfram:

„Raunin er hins vegar sú að skuldinni verður ekki alfarið skellt á lánardrottna þegar tafir verða á fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja. Samkeppniseftirlitið, og vafalaust einnig önnur stjórnvöld sem koma að þessu ferli, eiga nokkurn þátt í því hversu hægt fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja gengur.“

Grein Heiðrúnar er að finna í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.