Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að setja margvísleg skilyrði fyrir samruna JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf., félags Máls og Menningar bókmenntafélags, í nýja bókaútgáfu undir merkjum Forlagsins. Í ákvörðunarorðum Samkeppniseftirlits segir m.a. að það telji samrunann hafi verið skaðlegan samkeppni. Til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni hefur Forlagið m.a. samþykkt að gangast undir 21 skilyrði fyrir samruna, m.a. að selja frá sér tiltekin útgáfuréttindi, þ.e. réttindi til að gefa út tilteknar bækur og ritsöfn, ásamt birgðum af þessum bókum og ritsöfnum, í því skyni að draga úr markaðsstyrk Forlagsins gagnvart keppinautum í bókaútgáfu.

Samruninn var skaðlegur samkeppni

Í aðdraganda samrunans höfðu Vegamót keypt bókaútgáfuhluta Eddu útgáfu og fólst því í samrunanum að bókaútgáfa Eddu útgáfu sameinaðist JPV útgáfu. Að mati Samkeppniseftirlitsins var hér um að ræða samruna í skilningi samkeppnislaga og taldi stofnunin að samruninn gæti verið skaðlegur samkeppni ef ekki yrði gripið til íhlutunar vegna hans.

Til að eyða þeim samkeppnislegu vandamálum sem Samkeppniseftirlitið taldi að samruninn hefði í för með sér lögðu samrunaaðilar fram tillögur að skilyrðum sem honum yrðu sett. Auk fyrrnefndra skilyrða hefur Forlagið jafnframt undirgengist ýmis önnur skilyrði sem ætlað er að efla samkeppni og vinna gegn skaðlegum áhrifum samrunans. Meðal annars er Forlaginu gert að semja aðeins um útgáfurétt á einum bókartitli hverju sinni við rithöfunda. Þá er Forlaginu óheimilt að veita endurseljendum afslátt frá heildsöluverði bóka sinna nema Forlagið geti með óyggjandi hætti sýnt fram á kostnaðarlegt hagræði af viðskiptum við viðkomandi endurseljanda sem sé í samræmi við afsláttinn.

Má aðeins ákveða forlagsverð

Þá er Forlaginu óheimilt að mismuna endurseljendum bóka í hvers kyns kynningarstarfi, auglýsingaherferðum, eða með efni sem snýr að uppstillingu og auglýsingu bóka í verslunum endurseljenda nema slík mismunun byggist á almennum viðskiptalegum sjónarmiðum. Þá má nefna að Forlagið mun hér eftir aðeins ákveða forlagsverð, heildsöluverð, þeirra bóka sem fyrirtækið gefur út og selur til endurseljenda bóka. Forlaginu verður óheimilt að hafa nokkur afskipti af söluverði endurseljenda eða birta með nokkru móti söluverð endurseljenda á bókum sem Forlagið gefur út.

Þau skilyrði sem samrunanum hafa verið sett eru að mati Samkeppniseftirlitsins nægjanleg til þess að eyða þeim samkeppnislegu vandamálum sem ella hefðu skapast með samrunanum.