Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Eikar hf á fasteignafélaginu Landfestum, sem var í eigu Arion banka. Allir fyrirvarar ofangreinds kaupsamnings eru nú uppfylltir. Uppgjör og afhending í tengslum við viðskiptin mun eiga sér stað á næstu dögum.

Kaupsamningur milli Eikar fasteignafélags hf. og Arion banka hf. um kaup Eikar á öllu hlutafé í fasteignafélaginu Landfestum ehf. var undirritaður þann 20. desember 2013. Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemdir við kaupsamninginn sem var undirritaður m.a. með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Eik fasteignafélag hf. verður annað stærsta fasteignafélag landsins, eftir sameiningu við Landfestar, með um eitt hundrað eignir sem telja um 272 þúsund fermetra. Heildarfjöldi leigutaka verða yfir fjögur hundruð og efnahagur félagsins yfir 60 milljarðar króna.