Samkeppniseftirlitið hefur í dag beint erindi til ríkissaksóknara þar sem farið er fram á opinbera rannsókn á því hvaðan og hvernig trúnaðarupplýsingum um efni kæru Samkeppniseftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara hafi verið miðlað til óviðkomandi aðila.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær var greint frá því að ellefu starfsmenn fyrirtækjanna hafi haft veður af kæru á hendur sér til sérstaks saksóknara í Kastljóssþætti og ljóst að fréttamönnum hafði verið birt kæran á undan þeim sjálfum.

„Samkeppniseftirlitið lítur framangreinda miðlun upplýsinga mjög alvarlegum augum. Hefur ríkissaksóknara verið greint frá þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til innan Samkeppniseftirlitsins til þess að ganga úr skugga um hvort upplýsingarnar hafi borist þaðan og jafnframt auðvelda rannsókn málsins,“ segir í tilkynningunni.