Gera þarf ráðstafnir til að bæta samninga Sjúkratrygginga Íslands um heilbrigðisþjónustu að mati Ríkisendurskoðunar. „Að mati Ríkisendurskoðunar verður ekki séð að þessir samningar hafi almennt tryggt markviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Einnig má efast um að samningarnir séu í öllum tilvikum hagkvæmir eða stuðli að aukinni skilvirkni heilbrigðiskerfisins í heild,“ segir á vef Ríkisendurskoðunar.

Tilefni fréttarinnar er ný stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem fjallar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu.

Í skýrslunni er því beint til velferðarráðuneytis að það marki stefnu um heilbrigðisþjónustu og sjái til þess að lykilstofnanir heilbrigðiskerfisins vinni á samhæfðan hátt að markmiðum hennar. Í slíkri stefnumörkun telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að skýrt sé hvaða þjónustu heilbrigðisstofnanir eigi að veita og hvaða þjónustu eigi að kaupa af öðrum aðilum. Það stefnuleysi sem einkennir málaflokkinn hafi leitt til þess að áherslur fjárlaga hverju sinni, tímabundin átaksverkefni og úrlausn tilfallandi vandamála hafa mótað ákvarðanir um samninga um heilbrigðisþjónustu og þar með þróun heilbrigðiskerfisins.