Það var stærsti banki Noregs, DnB Nor, sem varð fyrstur til að kunngjöra afkomu sína fyrir annan fjórðung. Líkt og hjá svo mörgum öðrum fjármálafyrirtækjum minnkaði hagnaðurinn milli ára vegna aukinna framlaga á afskriftareikning og hækkandi kostnaðar. Þó verður ekki sagt að um skelfilega frammistöðu sé að ræða þar sem hagnaðurinn minnkaði aðeins um 1%.

Hagnaður bankans var 3,3 milljarðar norskra króna og minnkaði hann um 3 milljónir milli ára. Hins vegar hækkaði kostnaður um 14% og fór í 4,44 milljarða norskra króna og útlánatap nam 275 milljónum. Sérfræðingar sem Bloomberg-fréttaveitan leitaði til höfðu spáð því að hagnaður af rekstri bankans yrði 2,88 milljarðar norskra króna.

Forráðamenn bankans hafa sótt á erlenda markaði undanfarin misseri en aukinn kostnaður í rekstri skýrist meðal annars af því að starfsmönnum á erlendri grund fjölgaði um 900 í fyrra og var ráðist í fjórar yfirtökur. Bankinn starfar á öllum Norðurlöndunum fyrir utan Ísland og er einnig með starfsemi í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .