Bolli Þór Bollason, fyrrverandi ráðuneytissjóri í forsætisráðuneytinu, ræddi varla við Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra án þess að staða efnahagsmála bæri á góma í aðdranda bankahrunsins. Þetta er á meðal þess sem fram hefur komið í vitnaleiðslum yfir Bolla í Landsdómsmálinu sem nú stendur yfir.

Bolli segir samráðshópinn hafa treyst á mat Fjármálaeftirlitsins um stöðu bankanna á sínum tíma. Stofnunin hafi haft meiri upplýsingar um stöðu bankanna, en samráðshópurinn.

Fréttastofu Vísis og Fréttavefur Morgunblaðsins hafa fjallað ítarlega um vitnaleiðslur í máli Landsdóms gegn Geir í dag.

Bolli hefur verið spurður ítarlega um samráðshópinn sem hann átti sæti í. Hann segir fyrsta samráðshópinn sem settur var á laggirnar vegna vaxtar bankankerfisins hér á landi. Hann hafi hins vegar verið óformlegur og starfað fram til ársins 2006. Tilgangur seinni samráðshópsins hafi verið að halda stjórnvöldum upplýstum um stöðu mála en hann hafi hvorki átt að grípa fram fyrir hendurnar á stofnunum né semja aðgerðaáætlun.

Þetta er samhljóða því sem Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sem jafnframt átti sæti í samráðshópnum, sagði um hann. Baldur sagði m.a. samráðshópinn ekki hafa haft ákvörðunarvald.