Árið 2014 var tíðindamikið hjá Vodafone. Félagið glímdi við eftirköst alræmds lekamáls sem það varð fyrir undir lok árs 2013 og um mitt ár 2014 lét Ómar Svavarsson, forstjóri félagsins, af störfum og Stefán Sigurðsson tók við.

Að mati Jóhanns Viðars Ívarssonar hjá IFS Greiningu er það helst umtalsverð kostnaðarlækkun fyrirtækisins sem stendur upp úr á árinu. „Þeir hafa bætt arðsemina verulega á síðustu misserum og manni sýnist að það sé að stórum hlutakomið til að vera,“ segir Jóhann.

„Þeim hefur tekist að lækka kostnaðarhlutfallið til lengri tíma og í takt við það höfum við verið að hækka virðismat okkar á félaginu jafnt og þétt yfir árið.“

Samrekstur dregur úr fjárfestingarkostnaði

Samhliða tilkynningu uppgjörs Vodafone barst tilkynning frá Samkeppniseftirlitinu um að það hefði heimilað Vodafone og Nova að stofna samrekstrarfélag um dreifikerfi farsímaþjónustu. Slíkur samrekstur er þekktur erlendis, t.a.m. á Norðurlöndunum, en hann getur sparað báðum fjarskiptafélögunum töluverðan fjárfestingarkostnað á næstu árum.

„Fjarskipti hafa gefið það upp að þetta gæti lækkað fjárfestingarkostnað um allt að 20% í þessari starfsemi, þ.e. rekstri farsímakerfa. Það er ekki nógu varfærið að áætla að heildarfjárfestingarþörf þessara félaga lækki samsvarandi í kjölfarið. Þau eru í margþættri starfsemi og eru stöðugt að fjárfesta í öðrum þáttum, bæði í fjarskiptum og gagnaflutningum. Þetta er og verður fjárfestingarþungur bransi. Það er ekkert ólíklegt að slakinn sem myndast þarna verði nýttur til fjárfestinga á einhverjum öðrum sviðum,“ segir Jóhann.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .