Stjórnir efnavöruframleiðandanna Dow Chemical Co. og DuPont tilkynntu í dag að þeir hefðu náð samkomulagi um að sameina fyrirtækin. Fyrirtækin eru bæði á meðal elstu fyrirtækja Bandaríkjanna og eru bæði yfir 100 ára gömul.

Heildarverðmæti samningsins er um 130 milljarðar Bandaríkjadala. Umreiknað í íslenskar krónur eru verðmætið um 16.800 milljarðar króna, eða sem nemur nífaldri landsframleiðslu Íslands.

Fyrirtækin hafa átt í töluverðum erfileikum undanfarið í kjölfar lækkandi hrávöruverðs og styrkingu Bandaríkjadals. Samkvæmt yfirlýsingu fyrirtækjanna á samruninn að hjálpa fyrirtækum að bæta reksturinn með samlegðaráhrifum. Eftir að samlegðaráhrifin eru að fullu komin fram er áætlað að samsteypunni verði skipt upp í þrjú fyrirtæki sem yrðu skráð á markað. Fyrirtækin þrjú munu sérhæfa sig í mismunandi sviðum, eitt í framleiðslu fyrir landbúnað, eitt fyrir byggingarvörur og tendar vörur og þriðja fyrir sérvörur. Forsvarsmenn fyrirtækjanna vonast til að hægt verði að skipta fyrirtækinu upp hið fyrsta.

Samkvæmt samrunasamningnum munu hluthafar Dow Chemical skipta hlutabréfum sínum út með hlutfallinu 1:1 en hluthafar Dupont fá 1.282 hluti í sameinuðu fyrirtæki fyrir hvert hlutabréf í Dupont. Markaðsvirði fyrirtækjanna er nánast það sama, en forstjórar beggja fyrirtækja sögðu að það hefði auðveldað samrunaviðræður töluvert.

Þurfa samþykki yfirvalda og hluthafa

Samruninn gengur ekki í gegn fyrr en hluthafar beggja fyrirtækja hafa samþykkt samrunann. Stjórnvöld þurfa einnig að samþykkja, þ. á m. dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna (en það hýsir samkeppnisyfirvöld þar í landi).

Hlutabréf í Dow féllu um 1,7% við tilkynninguna og hlutabréf í DuPont féllu um 4,7%. DuPont kynnti einnig áætlun um endurskipulagningu á fyrirtækinu og áætlaðar sölutölur fyrir árið 2016, en þær tölur voru ekki bjartar.