Stóra verkefnið fyrir Þórð Friðjónsson, forstjóra NASDAQ OMX kauphallarinnar á Íslandi, er að laða að erlenda fjárfesta að íslenska markaðnum.

Samruni OMX kauphallarsamstæðunnar við bandarísku kauphöllina NASDAQ gerir róðurinn mun léttari, að sögn Þórðar. Þessi samruni gekk í gegn 27. febrúar. Jafnframt sameinaðist Íslenska kauphöllin OMX kauphallarsamstæðunni við lok árs 2006. "Eftir samrunann við OMX bættust við sjö erlendir kauphallaraðilar og nú með sameiningunni við NASDAQ eru fleiri fjármálafyrirtæki í sjónmáli. Okkar verkefni á næstu misserum er að ýta undir að þessir nýju kauphallaraðilar verði virkari á markaðnum," segir hann.

Í því sambandi er mikilvægt að fyrirtæki geti skráð bréf sín í evrum og gert upp í þeim gjaldmiðli kjósi þau það, enda er beygur í erlendum fjárfestum gagnvart krónunni, að sögn Þórðar. Þórður er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.